144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:09]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mér finnst vera komið tilefni til að við förum að ræða fundarstjórn forseta og þingsköp reglulega og í lengri tíma í einu eftir að ég heyrði í hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni hér áðan. Hann steig í pontu og heimtaði að málfrelsi þingmanna yrði tekið af þeim undir dagskrárliðnum um fundarstjórn vegna þess að við nýttum hann ekki eins og honum þóknaðist.

Við höfum ítrekað kvartað yfir fundarstjórn forseta vegna þess að fundarstjórn forseta er ótæk eins og ég benti á í ræðu minni áðan og mun benda á aftur, vonandi þegar hv. 2. þm. Norðvest. sest í forsetastól. Það er einfaldlega ekki þannig að forseti sé hlutlaus. Það er ekki þannig að forseti þingsins sé forseti allra þingmanna. Það er eins gott að við ræðum það því að hvað ætlum við að gera annað en ræða það? Er til of mikils ætlast að við höfum frelsi til að ræða þessa hluti, virðulegi forseti? (Gripið fram í.)