144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:15]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég sá að hæstv. umhverfisráðherra rauk héðan út áðan með einhverjum frammíköllum. Ég velti fyrir mér hvort ekki sé öruggt að hún haldi áfram að vera við umræðuna vegna þess að það skiptir máli að hún geti verið hér til að bregðast við og alla vega heyra það sem verið er að segja.

Mér finnst líka sérkennilegt vægast sagt ef hæstv. forsætisráðherra stígur fram í fjölmiðlum og heldur því fram úr þessum ræðustól að þetta mál sé einhvers konar forgangsmál ríkisstjórnarinnar og þeirra eina sanna lausn á kjaradeilunum sem nú standa yfir, þá komi hann hingað og fari yfir planið með okkur. Mér hefði fundist það vera eðlilegt að hæstv. forsætisráðherra gerði það ef eitthvert plan er í gangi. Það er augljóst að hann þarf að koma hingað og fara yfir það með okkur. Hann er ekki bara einhver maður úti í bæ sem getur setið við eldhúsborðið og sagt það sem honum dettur í hug. (Forseti hringir.) Ef þetta er lausnin á kjaradeilunum sem nú ríkja á vinnumarkaði (Forseti hringir.) þarf hann að koma hingað og fara yfir þá áætlun með okkur.