144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:20]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Við erum í umræðu um mál sem er gríðarlega stórt því það varðar ákvarðanir um hvaða orkukosti eigi að nýta og hverja eigi að vernda. Eins og við höfum margoft bent á höfum við gert athugasemdir við það að málið fái að vera á dagskrá þegar fyrir liggur breytingartillaga sem stenst ekki lögin. Hér eru í gildi lög um vernd og orkunýtingaráætlun og hér er þingsályktun sem var samþykkt árið 2013 um rammaáætlun, sú fyrsta sem samþykkt var, og þar fylgdi 68 blaðsíðna nefndarálit. Ég held, frú forseti, að stjórnarmeirihlutinn ætti að hafa hlé á þingstörfum núna, við ættum að fara í smáhlé og fólk læsi sig aðeins til svo fólk geti staðið hér ábyrgt gerða sinna.