144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:29]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ekki ætla ég að kvarta yfir því að við stöndum hér í tvo vinnudaga, menn láta eins og verið sé raska öllum heiminum þess vegna. Af hverju erum við að þessu? Á þeim 16–17 klukkustundum sem umræðan hefur átt sér stað hefur fólk verið upplýst um fullt af hlutum. Fjölmiðlar eru að átta sig á því að verið er að rjúfa ferli rammaáætlunar. Og skyldi það ekki líka koma betur og betur í ljós hvað menn þekkja lítið til þess sem verið er að fjalla um?

Ég óska sérstaklega eftir því núna að þeir sem sitja í salnum, það er að vísu einungis einn frá þeim sem flytja tillöguna, upplýsi okkur um það hvar við værum stödd ef við hefðum afgreitt Hvammsvirkjun strax, sem var tillaga ríkisstjórnarinnar eftir ráðleggingar frá viðurkenndum ráðuneytum, viðkomandi ráðuneytum, bæði umhverfisráðuneyti og atvinnuvegaráðuneyti. Hversu langan tíma tekur að ljúka vinnunni í verkefnisstjórninni? (Forseti hringir.) Þarf að standa hér dögum saman til að verja að það ferli haldi áfram? Þetta er ekkert nema hroki, ofbeldi og hnefarétturinn sem verið er að reyna að beita.