144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:38]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Áður en ég hélt ræðu mína fyrr í dag óskaði ég eftir því að hér í salnum sætu hv. þingmenn sem flytja þá breytingartillögu sem við erum að ræða hér vegna þess að ég ætlaði að fara yfir feril málsins. Ég hafði orðið vör við að þeir höfðu eitthvað misskilið stöðuna. En sú ósk mín var að engu höfð.

Hingað kemur hv. þm. Páll Jóhann Pálsson, einn af tillöguflytjendunum, og ræðir enn þann stóra misskilning sem breytingartillaga þeirra hv. þingmanna er byggð á. Ég mótmæli því að við höldum áfram þessum fundi. Ég bið frú forseta að leitast til um að sest verði niður með tillöguhöfundum og farið yfir málið með þeim því að þessi tillaga þeirra er framreidd á veikum lagalegum og pólitískum grunni.