144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:39]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mér fannst málflutningur hv. 5. þm. Suðurk. ekki mjög sannfærandi gagnvart því hvers vegna liggi svo á þessu máli. Nú er ekki eins og fólk hafi verið að mótmæla hérna fyrir utan Alþingi nýlega yfir því að fleiri virkjanir vanti eða að rammaáætlunin sé allt of hógvær og það þurfi nú aldeilis að fara að virkja í neðri hluta Þjórsá, það hefur ekki verið þannig. Ekki hefur verið ákall á það nema frá hv. meiri hluta þingsins og væntanlega þeim öflum sem þarna vilja virkja geri ég ráð fyrir.

Það er ekkert mál að leysa úr þessari deilu. Það er ofboðslega einfalt. Hvernig mundi maður leysa úr svona deilu? Maður mundi gera það á nákvæmlega sama hátt og maður mundi gera á hvaða vinnustað sem er, í hvaða skóla sem er, í hvaða fjölskyldu sem er, í hvaða vinahópi sem er, hvar sem er nema hérna. Maður mundi tala saman um það hvað við gætum gert sem yrði í sátt við alla.

Ég held að það sé út af fundarstjórn forseta í stóra samhenginu og þingsköpum hvers vegna Alþingi hið háa nýtur svo lítils trausts meðal almennings. Það er vegna þess að við getum ekki gert einfalda hluti eins og að tala saman. Þetta eru einföldustu hlutir sem hægt er að gera (Forseti hringir.) til að leysa deilur og við virðumst ómegnug um það. Hvers vegna?