144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:45]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Mig langar til að ræða aðeins í þessu máli um ferli rammaáætlunar. Ég flyt kannski meiri hlutanum og ríkisstjórninni fréttir en staðan er þannig á Íslandi að það ríkir ekki sátt um virkjunarmál. Það hafa allir skoðanir á þeim og það eru til þeir sem vilja virkja allt og það eru þeir sem vilja vernda allt og svo er allt þar á milli. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt að við setjum upp lögformlegt ferli, vandað faglegt ferli þar sem við reynum að ná einhverri sátt, og ég virði það og mér finnst það gott. Þess vegna eru það auðvitað mjög mikil vonbrigði þegar við ætlum að gera þetta pólitískt og sex manneskjur, meiri hluti atvinnuveganefndar, taka til sinna ráða. Það er ekki gott. Ég hefði haldið að ef menn væru ósáttir við hvernig málum væri háttað, í hvaða farveg við höfum náð að setja þetta mál, þá ætti frekar að breyta lögunum og láta það fara í gegnum þingið og við gætum rætt það. Ef meiri hluti atvinnuveganefndar ætlar að taka að sér það sem verkefnisstjórninni var falið og faghópunum þá erum við komin út í tómt rugl. Ég skil ekki að þessi umræða sem við stöndum í hér komi meiri hlutanum og stjórnvöldum eitthvað á óvart og þessi hörðu viðbrögð í málinu. Það á ekki að koma þeim á óvart.

Það er líka talað eins og það sé alveg bráðnauðsynlegt að virkja strax á morgun og því er jafnvel blandað saman við kjaraviðræður sem mér finnst mjög langsótt. Það er ekki eins og það séu ekki virkjunarkostir í nýtingarflokki og það er ekki eins og það séu ekki margir virkjunarkostir í biðflokki. Ég vil líka taka undir það sem hefur komið fram hérna að það skiptir mjög miklu máli að við fáum gott verð fyrir orkuna. Ég held að það séu margir í þeim hópi og ég er kannski í þeim hópi sem er ekki á þeim stað að ekki eigi að virkja meira á Íslandi, en ef það á að virkja fyrir fimmta álverið og selja orkuna lágu verði þá vil ég frekar ekki virkja neitt. Það eru líka margir sem spyrja: Ef við fórnum einhverju, hvað fáum við þá í staðinn? Það verður að fást ásættanlegt verð fyrir orkuna og það er ekki þannig í dag þannig að ég held að það spili inn í líka.

Það er líka annað sem mér finnst að við ættum kannski frekar að vera að ræða, af því að menn tala hér um að það þurfi að koma hjólum atvinnulífsins af stað og þess vegna sé mjög mikilvægt að virkja, að við erum í vandræðum hér á Íslandi með að flytja raforku á milli landshluta. Það er eiginlega mjög stórt vandamál og jafnvel það sem við ættum að vera að ræða frekar. Það er kerfisáætlun Landsnets sem ég held að atvinnuveganefnd sé búin að afgreiða út úr nefndinni.

Mér finnst nefndarálitin sem fylgja málinu mjög góð, t.d. nefndarálit 1. minni hluta atvinnuveganefndar. Ég vil vitna í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga við málið sem mér finnst ramma þetta nokkuð vel inn, með leyfi forseta:

„Afstaða Sambands íslenskra sveitarfélaga gagnvart rammaáætlun hefur verið sú að stjórnvöld verði að leggja mikla áherslu á að ákvarðanir um flokkun virkjunarkosta séu byggðar á faglegum sjónarmiðum. Í rammaáætlun er leitast við að tryggja að langtímahugsun og mat á heildarhagsmunum hvað varðar orkunýtingu og vernd landsvæða ráði niðurstöðunni og að ákvarðanir séu sem minnst háðar því hvaða ríkisstjórn er við völd á hverjum tíma. Ákvörðunarferlið þarf að vera gegnsætt og vandað þannig að sem mest sátt geti orðið um niðurstöðu rammaáætlunar, ella er hætta á að virðing fyrir niðurstöðu rammaáætlunar verði lítil sem engin.“

Þetta finnst mér mjög vel orðað og eins og talað út úr mínu hjarta.

Annar minni hluti leggur til að málinu sé vísað til umhverfis- og auðlindaráðherra og það hafi betur verið gert. Það er vísað í það í umræðunni að á síðasta kjörtímabili hafi menn sett þetta mál í pólitískan farveg. Ég skal ekkert segja um það. Mér finnst reyndar ekki hægt að líkja því saman að setja kost úr biðflokki í nýtingarflokk eða úr nýtingarflokki í biðflokk, í síðarnefnda tilfellinu er þá ekki búið að virkja og hægt að skoða málin betur. En eins og hefur verið sagt þá getur það auðvitað aldrei verið viðmiðið að menn hafi gert eitthvað sem fólk var ósátt við á síðasta kjörtímabili og þá ætlum við bara að gera það líka núna. Það eru engin málefnaleg rök. Við hljótum alltaf að reyna að bæta verklagið og vanda til verka eins og best er hægt. Mér finnst það vera nákvæmlega engin afsökun og eiginlega skrýtið hvað er alltaf verið að draga það upp í umræðunni.

Það er talað um í sambandi við verkefnisstjórnina að ekki hafi náðst að klára að skoða þessa kosti og það á kannski eftir að koma fram í ræðum þeirra sem þekkja betur þetta mál en ég, en mér finnst þetta dálítið athyglisvert. Á hverju strandar? Vantar peninga inn í faghópana, verkefnisstjórnina? Gæti það ekki verið ákvörðun að segja að næsta haust væntanlega gæti ráðherra lagt fram fleiri virkjunarkosti, þá sem um ræðir t.d. í Þjórsá, en það séu þá settir peningar í það og verkefnisstjórninni gefinn tími til að klára verkið? Ég átta mig ekki alveg á á hverju strandar. Ég hef heyrt talað um að fjármagn vanti í faghópana og ef það er tilfellið, ber okkur ekki þá skylda til að bregðast við því?

Mér finnst líka svolítið sérkennilegt í breytingartillögu meiri hlutans ef maður les hana að það er svolítið eins og meiri hlutinn sé orðinn að eins konar faghópi eða verkefnisstjórn, er að vega og meta virkjunarkosti og draga einhverjar setningar út úr umsögnum. Það er athyglisvert sem segir hér um Hagavatn, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn reiknar með því að tekið verði á álitamálum hvað varðar uppfok vegna sveiflu í lóni þegar mat á umhverfisáhrifum fer fram og þar verði unnt að finna ásættanlegar lausnir eða setja skilyrði ef af framkvæmdinni verður.“

Er það hlutverk meiri hluta atvinnuveganefndar að komast að einhverri svona niðurstöðu? Fyrir utan það að mér skilst að menn séu hættir við Hagavatnsvirkjun, meiri hlutinn ætlar að draga það til baka. Mér finnst þetta mjög ófaglegt og ekki eins og ég mundi vilja hafa það. Við á Alþingi erum engir sérstakir sérfræðingar í foki eða laxagengd — jú, ég tek það til baka reyndar, við erum með þingmenn sem eru sérfræðingar á því sviði, en alla jafna er faglegt að við fáum sérfræðinga til að meta þetta fyrir okkur og séum ekki sjálf að tína til einhverjar setningar úr umsögnum til að rökstyðja okkar ákvörðun.

Það sem mér finnst vont í þessu máli er að við tökum ferli sem tók tíma að vinna og er til og við ætlum að kasta því á haugana. Mér finnst þetta vera tilfellið með okkur Íslendinga, þetta er svipað eins og að sækja um aðild að Evrópusambandinu, hversu flókið getur verið að fara í slíkt ferli og klára það? Fullt af þjóðum hefur tekist það en nei, okkur tekst það ekki vegna þess að það er bara of erfitt, við vitum öll hvað er best, allir vita hvað er best og þá skulum við ekkert vera að hlusta á sérfræðinga eða vera með málið í ákveðnum farvegi. Tökum það bara út úr farveginum þegar okkur hentar. Mér finnst þetta alls ekki gott, virðulegi forseti.

Ég held að ég hafi ekki meira um málið að segja á þessu stigi. Ég hef aðallega setið hér í sal til að hlusta á aðra þingmenn. Ég hef aldrei almennilega náð utan um þetta ferli og er kannski ágætt að þurfa að pínast til að setjast niður og lesa um hvað þetta allt snýst. Ég hef líka svolitlar áhyggjur af því að fólk þarna úti átti sig ekki á hvað rammaáætlun er, hvað er nýtingarflokkur og biðflokkur, hvað er breytingartillaga við þingsályktunartillögu. Mér fyndist ágætt ef Ríkisútvarpið eða sjónvarpið mundi gera fréttaskýringarþátt um rammaáætlun þar sem væri farið yfir þetta mál frá upphafi til því ég held að það séu mjög margir sem líkt og ég áður en við fórum að ræða þetta mál hafa óljósa hugmynd um það en þekkja málið ekki til hlítar og skilja þess vegna kannski ekki af hverju við í stjórnarandstöðunni tökum það sem er núna í gangi á þingi svo óstinnt upp.