144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:57]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir að það er mikilvægt að við hefjum þetta upp úr pólitískum þrætum og ferlið sé faglegt. Ég get svo sem ekki svarað fyrir það sem var gert á síðasta kjörtímabili en mér skilst þó að það hafi verið lögmætt. Ráðherra hafði heimild til þess að setja þessa virkjunarkosti í biðflokk, taka þá úr nýtingarflokki og setja í biðflokk. Menn geta deilt um þá ákvörðun en hún var lögmæt og það er ekki jafn afdrifaríkt að taka kost sem er í nýtingarflokki og setja í biðflokk og að taka kost úr biðflokki og setja í nýtingarflokk, nýta hann án þess að kanna málið til hlítar. En það sem er hins vegar í gangi núna er að það eru áhöld um hvort þetta standist yfir höfuð lög. Það er áhyggjuefni.