144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:03]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það er svolítið merkilegt að hugsa til þess að þegar ríkisstjórnin komst til valda þá vildi hún vinda ofan af eiginlega öllu sem fyrri ríkisstjórn hafði gert, þar á meðal fjárfestingaráætlun um uppbyggingu innviða og um fjármagn í samkeppnissjóði. Og ég velti fyrir mér af því að vandinn virðist vera mestur varðandi atvinnuleysi hjá háskólamenntuðu fólki: Telur hv. þingmaður að flumbrugangur sem þessi varðandi það að fótumtroða löggjöf og vaða áfram til að geta virkjað kannski fyrr en ella eitthvað sem verður jafnvel virkjað síðar, sé það sem sé mest efnahagsleg þörf fyrir í íslensku samfélagi? Hvað með að setja fjármuni í samkeppnissjóði og slíkt? Væri það ekki líklegra til að leysa úr kjaradeilum?