144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:08]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er akkúrat kjarni vandans sem blasti við okkur á þeim tíma, vegna þess að það er almenn löggjöf sem hefur tekið gildi núna og menn hafa unnið eftir síðan en það giltu aðrar reglur um þessa fyrstu umferð. Það er alltaf verið að vísa í það ferli á sama tíma og ég hef sagt að ef við hefðum verið að gera það sama og menn eru að gera núna hefðum við örugglega sett einhverja kosti í vernd eða gert hlutina öðruvísi, ef pólitísk fingraför hefðu verið á því. Þess vegna fórum við þessa hlutlausu leið. (Gripið fram í.)

Ég spyr þess vegna hv. þingmann hvort hún telji að einhver önnur leið hefði verið fær í stöðunni, þegar við stóðum uppi með á þriðja hundrað umsagnir um ákveðna kosti. Hvernig ætla menn að fara með þær? Ætla þeir að horfa fram hjá þeim eða ætla þeir að biðja fagaðila að yfirfara þær svo menn fari ekki að taka ákvarðanir á grundvelli þeirra?