144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:36]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Hv. þingmaður talaði um ferðaþjónustuna, gildi náttúrunnar o.s.frv. En í tíufréttunum í gærkvöldi fór hæstv. forsætisráðherra yfir það að það væri svo mikilvægt að samþykkja þessa tillögu frá meiri hluta atvinnuveganefndar, um að koma fleiri virkjunarkostum í nýtingarflokk, vegna þess að það skipti máli til að leysa kjaradeilur. Hæstv. forseti þingsins sagði í hádegisfréttunum í dag að þetta væri forgangsmál ríkisstjórnarinnar.

Ég vil spyrja hv. þingmann — ég veit að þetta er erfið spurning og kannski ekki hægt að svara henni á einni mínútu: Veit hv. þingmaður hver atvinnustefna hæstv. ríkisstjórnar er? Er hægt að leiða líkur að því hver hún er af þeirri áherslu sem hér má sjá?