144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:38]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Atvinnustefna ríkisstjórnarinnar birtist manni í þessu sem gamaldags stóriðjustefna. Við erum ekkert sammála um það, stjórn og stjórnarandstaða, hvernig beri að túlka hana en þannig er það í mínum huga. Þetta er í andstöðu við ferðaþjónustuna sem hefur lagt fram afar góða umsögn um málið. Mér finnst við ekki bera virðingu fyrir þeim tekjum sem við fáum inn þar; ferðaþjónustan er að verða stærsti pósturinn okkar á Íslandi. Ég hef áhyggjur af því að þetta sé sú leið.

Og það er í besta falli kjánalegt að þetta sé innlegg í kjarasamninga, ég átta mig að minnsta kosti ekki á því hvað þetta á að leysa. Við hefjumst ekki handa á morgun og virkjum þannig að ég get ekki séð að þetta sé innleggið. En þetta er greinilega aðaláherslumál ríkisstjórnarinnar fyrst hv. þingmenn í atvinnuveganefnd fá að teppa dagskrána með stuðningi forseta þingsins.