144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:39]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum ræðuna. Við fengum að vita það í gegnum fjölmiðla og svo hér í dag að þetta væri innlegg ríkisstjórnarinnar í kjaraviðræður og hafa þingmenn stjórnarmeirihlutans vitnað í ýmsar umsagnir.

Nú er það svo að sú atvinnugrein sem hefur vaxið mest síðastliðinn áratug er ferðaþjónustan og það er jafnframt sú atvinnugrein sem nú aflar mestra gjaldeyristekna fyrir íslenskt þjóðarbú. Samtök ferðaþjónustunnar segja um þessa tillögu að hún sé ámælisverð og þau eru algerlega mótfallin henni, telja hana rýra trúverðugleika atvinnuveganefndar og þess ferlis sem rammaáætlun byggir á. Telur hv. þingmaður, ef þetta er innlegg í kjaraviðræður, að eðlilegt sé að koma svona fram við þá atvinnugrein sem aflar mestra gjaldeyristekna?