144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:40]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Nei, eins og ég rakti í ræðu minni áðan finnst mér þetta svolítið sérkennilegt, verið er að taka tillit til sumra en ekki allra og þá er eðlilegt að maður spyrji sig hvers vegna það er gert. Með svona stóran ferðamannaiðnað undir þykir manni atvinnuveganefnd taka létt á því þegar, eins og segir í umsögninni, þessi aðför rýrir trúverðugleika atvinnuveganefndar og þess ferlis sem rammaáætlun byggir á. En meiri hluta atvinnuveganefndar virðist vera bara slétt sama um það, sem er auðvitað afskaplega mikið áhyggjuefni. Og það að þetta sé innlegg í kjaraviðræður eins og hæstv. forsætisráðherra sagði er með miklum ólíkindum. Það var ágætlega rakið hér í dag að þetta er örugglega ekki það sem starfsfólk á spítölum, dýralæknar eða einhverjir aðrir eru að bíða eftir að tilkynnt verði um að meiri hluti atvinnuveganefndar hafi haft sigur, (Forseti hringir.) vegna þess að rammaáætlun var virt að vettugi og skiptir engu máli hvað stóriðnaðurinn ferðaþjónustan hefur um þetta að segja.