144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:42]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Undir lok umsagnar Samtaka ferðaþjónustunnar segir, með leyfi forseta:

„Það er skoðun Samtaka ferðaþjónustunnar að horfa verði á náttúruauðlindina á mun víðari grunni en gert hefur verið hingað til og stefna þannig að því að ná saman skipulagi sem horfi til langtímamarkmiða við nýtingu og verndun íslenskrar náttúru.“

Nú er meiri hluti atvinnuveganefndar að ganga í berhögg við þetta, en það sem meira er, ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hefur algerlega heykst á að finna leiðir til að afla tekna til að byggja upp innviði í ferðaþjónustunni. Og hvaða ósköp liggja núna inni í atvinnuveganefnd? Það er náttúrupassinn svokallaði sem er auðvitað handónýtt plagg, eins og ýmislegt annað sem kemur frá þessari ríkisstjórn. En hefur hv. atvinnuveganefnd verið að nota tíma sinn í að finna leiðir til að koma þá með eitthvað annað í staðinn fyrir náttúrupassann til að stuðla að uppbyggingu í þeirri grein? Nei. Tíminn fór í að búa til þessa endemis breytingartillögu og kalla til fjölda gesta og vinsa svo úr þá örfáu sem styðja þetta þvert á vilja margra samtaka og fjölda atvinnugreina.