144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:43]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get ekki annað en tekið undir það, eins og ég sagði í ræðu minni áðan, að áhugavert væri að komast að því síðar hver staðan á þessu er varðandi tekjur til að styrkja innviðina. Nú er það ljóst og hv. formaður atvinnuveganefndar gekk í rauninni frá því máli mjög fljótt varðandi náttúrupassann. Hér erum við að fara inn í enn eitt sumarið þar sem engar tekjur eru til staðar svo neinu nemi til að fara í þá uppbyggingu innviða sem þörf er á og það er auðvitað afskaplega bagalegt í ljósi þess að hér viljum við taka á móti fleira fólki og það er auðvitað afskaplega bagalegt að ekki sé gert ráð fyrir því í fjárlögunum. Við í minni hluta fjárlaganefndar og fleiri hér á þingi bentum ítrekað á það við umræðu um fjárlögin að það væri betra að gera ráð fyrir einhverjum tekjum fyrir Framkvæmdasjóð ferðamannastaða ef náttúrupassafrumvarpið yrði ekki að veruleika, eins og raunin hefur orðið á.