144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:53]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er kallað hér fram í að það skorti á lesskilning hjá mér þegar ég vitna í bók hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar. Það má vel vera að svo sé, auðvitað les hver með sínum augum það sem hann er að lesa hverju sinni.

Einnig eru mælikvarðar manna í svona hrossakaupum misjafnir. Það má vel vera að mælikvarðar fulltrúa Samfylkingarinnar og Vinstri grænna séu öðruvísi (Gripið fram í.) en okkar í Sjálfstæðisflokknum, en samkvæmt mínum mælikvörðum er ekki um annað að ræða en mjög gróf pólitísk hrossakaup um þetta mál. (Gripið fram í.) En það getur vel verið að mælistikan sé ólík, það sé Fahrenheit á þeim bænum en Celcius hjá okkur.

Ég ætla aðeins að koma að því sem hv. þingmaður sagði þegar hún talaði um gamaldags stóriðjustefnu. Síðasta orkuframkvæmd sem ég tók þátt í að afgreiða í gegnum þingið snerist um Bakka og það var undir forustu Vinstri grænna. Það var stóriðjuframkvæmd sem kallaði á meiri ívilnanir en nokkur (Forseti hringir.) önnur stóriðjuframkvæmd sem lagafrumvarp hefur verið flutt um. Ég vil spyrja hv. þingmann: Var þetta frumvarp vinstri grænna, og þátttaka okkar í að afgreiða það, stóriðju-gamaldags-kallastefna? (Gripið fram í.)[Háreysti í þingsal.]