144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

um fundarstjórn.

[20:04]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Finnst hæstv. forseta ekki eins og mér og fleirum sem eru hérna dálítið undarlegt að við séum í síðari umr. um þingsályktunartillögu þar sem dembt er inn breytingartillögum af þeirri stærðargráðu sem ég þarf ekkert að fara yfir hér? Síðan koma menn hér, eins og hv. þm. Svandís Svavarsdóttir sagði, og boða breytingartillögur við þær breytingartillögur en það er ekkert komið fram. Síðan koma menn hér líka, eins og forsætisráðherra, og halda því fram að það sé einhver lykill að lausn í kjaradeilum á vinnumarkaði að þessu máli verði lokið en kemur samt ekki hingað og fer yfir áætlunina og hvar þessi liður passar inn í hana um það hvernig menn ætli að leysa þær deilur.

Ég verð að segja alveg eins og er, virðulegi forseti, að ég hef aldrei upplifað annað eins. Mér finnst þetta allt saman óskaplega sérkennilegt, og efnisleg umræða um þetta mál líður fyrir það á meðan menn koma ekki hingað og gera skýra grein fyrir því hvert planið er, virðulegi forseti.