144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

um fundarstjórn.

[20:09]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Að nafninu til er hugmyndin sú að virðulegur forseti sé forseti allra þingmanna og alls þingsins og sé almennt með þinginu í liði en ekki ríkisstjórninni, ef um lið mætti tala, og ég vil bara leyfa mér að tala um lið.

Nógu mörg mál bíða sem eru alveg þess virði að tala um og ef við eyddum 1/50 af þeim tíma sem við eyðum hér í að karpa um þessa dagskrá í að reyna að komast að sameiginlegri niðurstöðu um það hvernig við eigum að haga dagskránni þori ég að fullyrða að við værum búin að afgreiða nokkur mál. Það er fullt af málum hér sem hafa gott af umræðu og enginn ágreiningur ríkir um sem við gætum klárað en eru föst hér bara vegna þess að menn vilja halda þessum ágreiningi. Það er algjörlega tilgangslaust, virðulegi forseti, og ég tel að það sé löngu (Forseti hringir.) orðið tímabært að við förum að einbeita okkur að því hvernig við ætlum að laga vinnubrögðin á þingi.

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.