144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

um fundarstjórn.

[20:12]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég sakna þess að upphafsmaður þessarar umræðu, hv. þm. Jón Gunnarsson, er ekki viðstaddur. Það er hægt að greiða fyrir umræðunni með ýmsum hætti. Sá ágæti hv. þingmaður hefur fyrir sitt leyti gert það í dag með því að sýna mjög góðan og jákvæðan áhuga á síðari tíma bókmenntum Íslendinga og meðal annars lesið upp úr bókinni Ár drekans.

Nú er komið í ljós að hann hefur ekki lesið nógu langt. Hann hefur til dæmis ekki lesið fram að þeim parti þar sem fjallað er um Urriðafoss, en í bókinni er fjallað um Urriðafoss með nákvæmlega sama hætti og nú er búið að upplýsa að helstu forustumenn Sjálfstæðisflokksins töluðu á sínum tíma. Það væri mjög þarft að fá fram hvort hv. þm. Jón Gunnarsson er ekki sömu skoðunar og lýst er í bókinni Ár drekans um Urriðafoss og meðal annars Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, á sínum tíma lýsti einnig yfir samkvæmt nýjustu upplýsingum.

Því spyr ég hæstv. forseta hvort ekki sé hægt að færa hv. þm. Jón Gunnarsson, ef ekki viljugan þá nauðugan, (Forseti hringir.) hingað til salarins þannig að hægt sé að spyrja hann út um þetta nema auðvitað lagsbróðir hans, fyrrverandi formaður Lögmannafélagsins, geti svarað í hans stað. [Hlátur í þingsal.]