144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

um fundarstjórn.

[20:20]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Herra forseti. Eins og bent hefur verið á hér á undan þá eiga þinglok samkvæmt starfsáætlun að vera föstudaginn 29. maí. Mig langar til að spyrja forseta hvort hann geti staðfest það að starfsáætlun þingsins muni halda. Þetta þýðir að sex þingdagar eru eftir vegna þess að á mánudaginn er hvítasunna og á miðvikudaginn á að vera eldhúsdagur og samkvæmt venju er ekki fundað þann dag.

Það horfir til hreinna vandræða, virðulegi forseti. Við erum hérna með þetta mikla mál. Umhverfisráðherrann hefur sagt að það eigi að leggja fram einhverja breytingartillögu og við vitum ekki hver sú breytingartillaga er. Þetta er seinni umræða, það er enginn tími til að ræða málið aftur í nefnd og fara yfir það. Þetta er óþolandi. Það verður að taka málið af dagskrá. (Gripið fram í: Heyr, heyr!)