144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

um fundarstjórn.

[20:22]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er auðvitað hægt að sýna því skilning, ef aðstæður eru með þeim hætti, að hæstv. umhverfisráðherra geti ekki verið við umræðu málsins í kvöld. Það er þá algjörlega óhjákvæmilegt að fresta frekari umræðu um málið. Ef menn vilja ekki vísa því til nefndar þá er það þeirra ákvörðun en það er þá eðlilegt að taka bara fyrir næsta mál á dagskránni. Það er ekki bara þannig að hér sé um að ræða stjórnarfrumvarp sem flutt er af umhverfisráðherra heldur hefur nefndur umhverfisráðherra, eins og hér hefur komið fram, nýlega boðað breytingartillögu sem hafi verið rædd í ríkisstjórn en hefur ekki enn verið lögð fram og þess vegna er tvöföld ástæða til þess að umhverfisráðherrann þurfi að vera hér við umræðuna. Fyrst ekki er unnt að verða við því tel ég að það sé óhjákvæmilegt að umræðunni verði frestað og henni fram haldið þegar ráðherrann getur verið viðstödd.