144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

um fundarstjórn.

[20:26]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Dagskrá Alþingis er komin í þvílíkar ógöngur að ég sé ekki hvernig við eigum að halda áfram hér í kvöld með hana í þessum málum. Ég get ekki séð að við vitum í raun forsendurnar sem við eigum að nota í umræðum um það mál sem hér er á dagskrá, svo af hverju og hvernig eigum við þá að ræða það?

Við þurfum að fá skýrari svör frá hæstv. forsætisráðherra um það hvernig það mál sem hér er á dagskrá tengist inn í kjaraviðræðurnar en fyrst og fremst þurfum við að fá að sjá þær breytingartillögur við breytingartillöguna sem hér liggur fyrir, sem hæstv. forsætisráðherra léði fyrst máls á og hæstv. umhverfisráðherra tók svo undir. Þangað til við höfum fengið þessar breytingartillögur við breytingartillöguna getum við ekkert haldið áfram að ræða þetta mál, og þess vegna legg ég það til við hæstv. forseta að fundi verði frestað þar til við fáum þessi gögn í hendur.