144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

um fundarstjórn.

[20:30]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Ég er ekki alveg sammála þessu, ég mundi vilja hafa hæstv. forsætisráðherra í salnum vegna þess að hann lætur að því liggja að þau virkjunaráform sem eru á borðinu skipti sköpum í kjaraviðræðum. Mér finnst mjög mikilvægt að vita hvað hann er að hugsa í því samhengi og sannfæri okkur þá um þetta mál, og þá vil ég geta átt samtal við hæstv. ráðherra og farið í andsvar og þar fram eftir götunum.

Ég mundi svo vilja taka undir með þingmönnum sem hér hafa talað um að rétt væri að fresta þessu máli, taka inn þau mikilvægu mál sem meiri hlutinn segir að bíði. Við viljum ekki stöðva þau, það mætti fresta þessari umræðu, það er margoft gert að umræðu er frestað og kannski ætti að fresta henni bara þangað til forsætisráðherra er tilbúinn að koma og útskýra betur hvað hann á við. Orð hans hafa vægi. (Forseti hringir.) Hann er forsætisráðherra þjóðarinnar og hann verður að tala skýrt og útskýra hvað hann á við.