144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

um fundarstjórn.

[20:32]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er augljóslega þannig að þetta mál er fullkomlega vanbúið til frekari umræðu í ljósi þeirra upplýsinga sem hér hafa fram komið. Hæstv. forsætisráðherra þarf að útskýra með hvaða hætti þetta mál hefur verið rætt við aðila vinnumarkaðarins sem liður í gerð kjarasamninga eða til að greiða fyrir kjarasamningum, því að engin launþegasamtök í landinu kannast við að hafa kallað eftir þessari valdníðslu, þannig að þetta er ekki í þeirra boði og ekki á þeirra ábyrgð.

Það er líka ljóst að við þurfum að fá að sjá forsendurnar fyrir því að Hagavatnsvirkjun sé tekin út úr breytingartillögunni og við þurfum að fá að sjá efnislegan rökstuðning fyrir tillögunni svo breyttri. Við erum í sjálfu sér að ræða um eitthvað sem enginn veit hvað verður nákvæmlega, því að það hafa verið boðaðar breytingar á tillögunni. Nú væri eðlilegt að nefndin kallaði málið aftur inn til nefndar, gerði á því þær breytingar að fella Hagavatnsvirkjun út og breytti greinargerð með tilsvarandi hætti og þá værum við með umræðuhæft mál í þinginu.