144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

um fundarstjórn.

[20:38]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það heyrðist nú hér úti í sal að þetta væri eina tillagan sem lægi fyrir í þessu máli. Eru þá orð hæstv. forsætisráðherra og hæstv. umhverfisráðherra ómerk, er það málið? Er þetta bara einn blekkingaleikur? Í hvaða leikriti erum við stödd og hv. þm. Páll Jóhann Pálsson? Hann flutti hérna gamanmál fyrir kvöldmat um að ekki væri hægt að hækka kaupið fyrr en þessar virkjanir væru komnar í gang. Það kom nú fram í kvöldfréttum að mér skilst og ekki lýgur útvarpið.

Ef það er þannig þá held ég að það sé fullt tilefni til þess að ráðherrabekkirnir hér séu fullskipaðir og allir séu að fylgjast með þessari umræðu, ef við erum að koma hjólum atvinnulífsins í gang með því að klára þetta mál. Er þá ekki rétt að það sé fullmannað hér um borð hjá hv. þingmanni?