144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

um fundarstjórn.

[20:41]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Hér hafa menn kallað eftir því að fá að ræða málið og ég hvet menn einfaldlega til þess að gera það í ræðum um málið sjálft. Nú vantar klukkuna korter í níu að kvöldi og í dag hafa verið haldnar fjórar ræður um málið, fjórir þingmenn hafa komist að. Þannig er nú staðan. Að öðru leyti hafa menn verið hér í málþófi undir liðnum um fundarstjórn forseta.

Það var nú ansi skrautleg yfirlýsingin frá formanni Samfylkingarinnar hér áðan þar sem hann ásakaði þessa fjóra ágætu ræðumenn um að vera með grautarlega umræðu. Ég er bara algjörlega ósammála því. Það hafa verið fluttar mjög góðar ræður og málefnalegar frá hv. þingmönnum Brynhildi Pétursdóttur, Oddnýju Harðardóttur, flokkssystur hv. formanns, Guðmundi Steingrímssyni og Bjarkeyju Gunnarsdóttur. Þessir hv. þingmenn hafa komið sínum málefnalegum sjónarmiðum á framfæri og átt hér orðastað við okkur hin sem erum að fylgjast með umræðunni. Ég frábið mér þann málflutning formanns Samfylkingarinnar að þær ræður hafi verið grautarlegar. Þetta var allt saman mjög skýrt, og ég hvet til þess að fleiri ræðumenn komist hér að til að halda áfram með umræðuna.