144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[20:46]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um breytingu á þingsályktun um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Þar er undir breytingartillaga hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra um að færa Hvammsvirkjun úr biðflokki í nýtingarflokk og síðan tillögur meiri hluta atvinnuveganefndar sem leggja auk þess til að Holta- og Urriðafossvirkjun fari í nýtingarflokk auk Skrokköldu og Hagavatns með röksemdum sem fram koma í nefndaráliti og í breytingartillögum meiri hluta.

Við ræðum líka munnlega breytingartillögu sem hefur verið kynnt hér af hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra um að Hagavatnsvirkjun verði ekki hluti af breytingartillögu meiri hluta atvinnuveganefndar, en sú tillaga hefur ekki birst enn þá á þingskjali og ekki heldur þær röksemdir sem henni hljóta að fylgja. Við það hafa verið gerðar allnokkrar athugasemdir og mundi ég vilja óska eftir því, úr því að hæstv. umhverfisráðherra er kominn í salinn og hér eru líka formaður þingflokks Framsóknarflokksins og fulltrúar úr meiri hluta atvinnuveganefndar, að Alþingi yrði greint frá því hvað þessari breytingartillögu líður og ítarlegri greinargerð með henni.

Það er mjög mikilvægt að rökstuðningur fylgi þannig að við vitum um hvað er rætt. Þó að fundarstjórn forseta sé ekki rædd sérstaklega undir þessum lið tel ég fulla ástæðu til að halda því til haga að ég geri athugasemd við það að umræðunni skuli fram haldið þrátt fyrir að þessi breytingartillaga hin síðari skuli ekki liggja fyrir í þingskjali og umræddar röksemdir þar við.

Mig langar í þessari umræðu um rammaáætlun almennt að rifja upp fyrir okkur sem hér erum til hvers lagt var af stað með hugmyndina um rammaáætlun. Ég ætla ekki í þeirri umræðu að fara yfir nöfn og kennitölur eða ártöl heldur miklu frekar þá hugmyndastrauma sem verið hafa í gangi og leiddu síðan til nálgunarinnar um rammaáætlun.

Það liggur fyrir og hefur margoft komið fram, í umræðunni um þetta tiltekna mál, um frumvarpið 2011 til laga og síðan árið 2013, að gríðarlega miklir hagsmunir liggja til grundvallar hugmyndinni um rammaáætlun, en það eru líka gríðarlega sterkar skoðanir og hugsjónir. Það er því ekki að furða að þegar kemur að umræðunni um þennan þátt stjórnmálanna skuli jafnan vera mikil og sterk skoðanaskipti og oftar en ekki miklar tilfinningar á ferð.

Rammaáætlun var ekki hugsuð til að ná sátt, vegna þess að sátt verður ekki náð í svona stóru máli. Endanlegri sátt verður aldrei náð um hvað eigi að virkja og hvað eigi að vernda. Mörg okkar erum þeirrar skoðunar að það sé nóg komið, það sé löngu komið nóg, það sé komið nóg af nýtingu, það sé komið nóg af virkjunum. Mörg okkar eru þeirrar skoðunar að það megi gefa miklu, miklu meira í og að nýta megi orkuauðlindina hiklausar en gert hefur verið. Þær skoðanir eru líka uppi.

Rammaáætlun, sama hversu góð hún er, mun aldrei ná að sætta þau sjónarmið. Þau eru fyrir hendi, þau hafa verið fyrir hendi og þau munu verða fyrir hendi. Rammaáætlun var hugsuð sem einhvers konar sameiginlegur skilningur á leikreglum og á grundvelli niðurstöðunnar. Stærsti mikilvægi áfanginn náðist kannski að því er varðar þetta langa ferli, sem nær yfir hartnær 20 ár, þegar lögin voru sett á Alþingi árið 2011. Þá lánaðist okkur á Alþingi að sammælast um þennan grundvöll þrátt fyrir hin ólíku sjónarmið, þ.e. að setja lög um ferlið, um hugmyndafræðina, um aðferðina. Eins og títt er þegar slíkur grundvöllur er lagður er okkur ekki endilega ljóst í byrjun hverjir gallar aðferðafræðinnar reynast síðan verða, hvar við eigum eftir að steyta á skeri, hvar við eigum eftir að lenda í vandræðum, hvar við erum sammála og hvar við erum ósammála því að verkfærið nýtist okkur sem skyldi.

Umræðan, eins og hún hefur verið frá því að breytingartillaga hv. meiri hluta atvinnuveganefndar kom fram, hefur í raun og veru snúist um túlkun, hún hefur að miklu leyti snúist um túlkun á þessum lögum, hvað sé hægt að gera og hvað sé ekki hægt að gera. Við búum svo vel að eiga töluvert af umsögnum um þá túlkun. Við eigum minnisblöð frá ráðuneytinu sem fer með rammaáætlun, umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Við eigum minnisblað frá atvinnuvegaráðuneytinu. Við eigum umsögn frá Skipulagsstofnun sem fer með eftirlit og utanumhald um umhverfismat áætlana og umhverfismat framkvæmda. Allar þessar umsagnir eru okkur leiðarljós og leiðsögn um það hvernig okkur beri að skilja þetta dýrmæta verkfæri.

Svo gerist það þegar tillagan er komin til umræðu núna eftir páska að okkur greinir á um tvennt, annars vegar það hvort tillagan sé yfir höfuð tæk, vegna þess að hún sé ekki breytingartillaga, hún sé miklu meira en það, og hins vegar hvort tillagan standist lög um rammaáætlun. Forseti hefur úrskurðað um það, hann hefur komist að niðurstöðu um það, en sá úrskurður, að því er varðar lögmætið eða það að tillagan byggi á lögum um rammaáætlun, gengur í raun í aðra átt en önnur þau álit sem við höfum í höndunum. Það er slæmt. Það er mjög slæmt fyrir mál sem vegur jafn þungt og rammaáætlun, vegna þess að það er mikilsvert að ekki sé ágreiningur um að ferlið sé í sjálfu sér lögmætt, þ.e. að niðurstaða ferlisins sé þannig að hún standist lög.

Forsagan snýst ekki aðeins um afstöðu til náttúruverndar og nýtingar, hún snýst ekki aðeins um tilraunir til að draga upp völl þar sem við getum tekist á, að koma sér saman og sammælast um reglur og ferla, heldur er þessi saga líka saga pólitískra átaka. Hún er líka saga sem er eitt lag í afskaplega flókinni pólitískri stöðu áranna eftir hrun. Þetta er einn af mörgum þráðum sem eiga þátt í að spinna þann furðuvef sem við öll eigum eftir að horfa til einhvern tímann, líta um öxl; sumir eru fljótari en aðrir að draga upp mynd af því hvað það var sem gerðist. Sjálfri finnst mér eins og að við séum að sumu leyti enn þá í miðjum klíðum, ekki bara pólitískt heldur líka sem samfélag.

Þessi hluti umræðunnar fór að snúast um það í aðdraganda kosninganna 2013 að með ferlinu sem dregið var upp í lögunum 2011 og bráðabirgðaákvæði með þeim lögum hefði verið um að ræða ómálefnaleg pólitísk inngrip. Sú umræða hefur náð töluverðu flugi í gegnum tíðina, mestu í aðdraganda kosninganna 2013 en hún hefur verið lífseig, hún hefur komið upp á yfirborðið aftur og aftur og jólabók hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, Ár drekans, hefur verið mikið notuð sem stuðningsrit við þær röksemdir.

Umræðan snýst í raun og veru um tvennt, annars vegar um það að í lögunum var gert ráð fyrir tólf vikna umsagnarferli. Okkur ráðherrunum — við vorum fá þegar málið fór af stað, sú sem hér stendur og hv. þm. Katrín Júlíusdóttir og síðar hv. þm. Oddný G. Harðardóttir, sem báðar gegndu embætti iðnaðarráðherra — var ætlað að setja flokkunina út í umsagnarferli í tólf vikur. Okkur var gríðarlegur vandi á höndum vegna þess að ekki var skýrt kveðið á um það í löggjöfinni hvernig fara ætti með endanlega flokkun. Ég veit að hv. þm. Páll Jóhann Pálsson heldur mjög gjarnan á niðurstöðu verkefnisstjórnar rammaáætlunar frá 2012 en þá átti í raun og veru eftir að flokka. Þar vorum við einungis með röðun út úr niðurstöðu faghópanna.

Það sem við gerðum var að við tókum ákvörðun um það, sem ég held enn að hafi verið mjög farsælt, að fá formenn þessara faghópa og formann verkefnisstjórnarinnar ásamt einum lögfræðingi úr hvoru ráðuneyti, umhverfis- og iðnaðarmála, til að flokka virkjunarkostina í þessa þrjá flokka. Sjálf var ég þeirrar skoðunar, og sú skoðun hafði ekkert vægi í þeirri umræðu, að við hefðum verið stödd þar á þeim tíma að langfarsælast hefði verið að biðflokkurinn hefði verið miklu stærri, að við hefðum prufukeyrt ferlið þannig að við lentum síður í átökum með það og öðluðumst traust á ferlinu áður en það yrði vettvangur mikilla átaka.

Þessi hópur, með lögfræðingana innan borðs, komst hins vegar að þeirri málefnalegu niðurstöðu, á grundvelli laganna eins og þau litu út, að eina málefnalega nálgunin væri sú að í biðflokk færu aðeins þeir virkjunarkostir þar sem gögn skorti og hinir kostirnir ættu annaðhvort heima í nýtingar- eða verndarflokki. Þá flokkun settum við síðan í opið umsagnarferli í tólf vikur og út úr þeim umsagnarfresti kom gríðarlega mikið af athugasemdum. Mjög mikið af þeim athugasemdum höfðu komið fram áður í samskiptum við verkefnisstjórn og aðra þá sem héldu utan um rammaáætlun, vegna þess að lagt var mikið upp úr því að ferlið væri opið alla leið.

Okkur fannst málefnaleg nálgun að segja sem svo: Greinum frá þær athugasemdir sem ekki hafa komið fram á fyrri stigum. Þær voru aðallega varðandi tvö svæði. Það kom til dæmis gríðarlega mikið af athugasemdum varðandi Reykjanesskaga, mjög mikið. Þær athugasemdir voru allar um það hversu dýrmætt og óafturkræft það svæði væri, en þær athugasemdir höfðu komið fram áður. En athugasemdirnar varðandi laxinn í Þjórsá og athugasemdirnar varðandi návígið við Vatnajökulsþjóðgarð voru ekki áberandi í umsögnum á fyrri stigum. Við ákváðum að af 67 kostum færu sex kostir til betri skoðunar. Hjá okkur? Nei. Hjá verkefnisstjórn. Vegna þess að það hafði verið rökstutt sérstaklega.

Ég held að enginn efist um það í sjálfu sér síðan þetta gerðist að full ástæða var til að fara betur yfir það sem kallað var laxarökin, vegna þess að við erum þar með einn stærsta og dýrmætasta laxastofn í Norður-Atlantshafi. Við getum ekki yppt öxlum og sagt: Við þurfum ekkert að athuga það betur. Ef til þess bærir fræðimenn hafa ástæðu til að hafa áhyggjur af því getum við ekki gert það. En við töldum það ekki vera hlutverk okkar að meta það endanlega heldur þyrfti að skoða það betur.

Það sama gilti um návígið við Vatnajökulsþjóðgarð og ég held raunar, virðulegi forseti, að full ástæða sé til að skoða það betur, í stærra samhengi í þinginu, hvað við viljum gera við hálendi Íslands. Mér finnst þeirri umræðu vera að vaxa mjög ásmegin að þar séu verðmæti sem séu hafin yfir alla hagsmuni orkuvinnslu vegna þess að þau eru einstök á heimsvísu, þau eru líka einstök í Evrópu. Ferðaþjónustan rökstyður það líka mjög vel í umsögn sinni um þessa breytingartillögu að það svæði sé sérstaklega dýrmætt og mikið óráð að fara þangað inn.

Þetta voru hin pólitísku inngrip. Þetta voru fingraförin mín og þeirra hæstv. iðnaðarráðherra sem gegndu þá embættum í ríkisstjórninni. Svo víkur sögunni að uppgjöri hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar eftir veruna í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar þar sem hann taldi að ekki hefði verið nóg að gert í því, af hendi Samfylkingarinnar, að nota þetta mál og þessa stöðu gagnvart VG að því er varðaði einhvers konar pólitísk hrossakaup til að stilla VG meira upp við vegg en gert var. Hann telur að það hafi ekki verið nýtt eins vel og þurfti. Menn hafa þá lesið valda kafla úr þeirri bók og sagt sem svo að þarna væri búið að sanna að átt hefðu sér stað pólitísk hrossakaup. Ég vil þá minna hv. Alþingi á að á þeim tíma vorum við í raun minnihlutastjórn en í öllum þessum málum, náttúruverndarlögum, rammaáætlun og fleiri umhverfismálum, áttum við alltaf 38 atkvæði hér í sal. Af hverju var það? Það var af því að hv. þingmenn Atli Gíslason, Lilja Mósesdóttir, Róbert Marshall, Guðmundur Steingrímsson, Þór Saari og Birgitta Jónsdóttir stóðu alltaf með ríkisstjórninni í umhverfismálum. (Gripið fram í.) Og á hvaða plottfundum þau voru um þessi mál með Jóhönnu Sigurðardóttur eða Steingrími J. Sigfússyni hef ég ekki heyrt. Ég hef ekki heyrt það.

Virðulegi forseti. Þessar 20 mínútur voru fljótari að líða en ég hafði áttað mig á, þannig að ég er ekki komin mjög langt í ræðu minni. En mig langar að segja að það er mikið óráð að koma fram með þessa tillögu eins og hér er gert. Ekki aðeins vegna þess að ég sé efnislega ósammála innihaldi hennar heldur vegna þess að það er miklu meira í húfi. Hér er miklu meira í húfi og það er hægt að anda í kviðinn og bíða eftir því að verkefnisstjórnin klári vinnu sína og virða það ferli sem dregið er upp í lögunum 2011.

Ef menn hafa þá skoðun að það ferli sé ekki nógu gott, það sé ekki nógu skýrt, þarf að skoða lögin og þá þarf líka að gera það í þverpólitískri sátt, því að öðruvísi gengur það ekki gagnvart framtíðinni og komandi kynslóðum. Við erum að véla um verðmæti sem við eigum ekki ein, sem við höfum, eins og frumbyggjar Bandaríkjanna hafa gjarnan sagt, fengið að láni frá börnunum okkar. Þess vegna þurfum við að ganga vel um öll þau verðmæti. Mitt mat á stöðunni, eins og hún liggur akkúrat núna, er að það dugi ekkert minna en að draga breytingartillögu hv. meiri hluta atvinnuveganefndar til baka.