144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:21]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður er á sömu slóðum og hv. þm. Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar, að því er varðar smekk á síðari tíma bókmenntum en er hins vegar ofjarl hans að því er varðar læsi og skilning á þeim. Það er alveg hárrétt sem hv. þingmaður sagði um hvernig skilja bæri lýsingu mína á tilteknum atvikum, enda var ég að reyna að ná árangri en ekki vinna fegurðarverðlaun.

Ef hv. þingmaður mundi lesa bókina áfram þá sæi hún líka viðhorf mín til laxarakanna. Það kemur fram að ég gef ekki mikið fyrir þau, gaf ekki þá og afstaða mín hefur ekki breyst mikið um það. Það hefur ekkert með það að gera að ég hef sérstaka afstöðu gagnvart Urriðafossi. En í máli hv. þingmanns kom fram að það voru bara laxarökin sem gerðu það að verkum að þarna var þessi breyting gerð og ég spyr hv. þingmann: Ef hún fengi gögn sem sýndu henni fram á að laxarökin giltu ekki mundi hún þá (Forseti hringir.) samþykkja þessar virkjanir í neðri hluta Þjórsár?