144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:22]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þarna kom sama blikið í auga hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar eins og hjá Unni Brá Konráðsdóttur hér rétt áðan. Í fyrsta lagi þá hef ég lesið bókina alla, og það hefur ekkert endilega verið skemmtilegt að öllu leyti, en við förum yfir það síðar.

Varðandi laxarökin og hvort ég mundi fyrir mína parta fallast á niðurstöðu rammaáætlunar ef gerð yrði sú tillaga að neðri hluti Þjórsár færi í nýtingarflokk, þá er það svo, eins og kom fram áðan í mínu máli, að ég er sjálf þeirrar skoðunar að það sé nóg komið af orkuöflun á Íslandi. Ég er sjálf þeirrar skoðunar. En ég er samt þeirrar skoðunar að rammaáætlun sé dýrmætt og mikilvægt verkfæri sem beri að hafa í heiðri, en ég áskil mér rétt til þess að vera náttúruverndarsinni eftir sem áður.