144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:26]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Páli Val — nú man ég ekki föðurnafnið (Gripið fram í.) Björnssyni fyrir að hafa gefið mér eftir sæti sitt á mælendaskrá. Það er svolítið sérstakt að standa hér og tala á eftir hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur sem var umhverfisráðherra á síðasta kjörtímabili því að ég ætla að nota þennan tíma til að fara yfir það hvernig kaupin gerðust á eyrinni á síðasta kjörtímabili.

Hér er verið að tala um samsæriskenningar og að þetta hafi ekki verið með ákveðnum hætti og að sú ákvörðun sem var samþykkt með þingsályktun á síðasta þingi, um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, hafi verið byggð á faglegum grunni. Svo var ekki því að hún byggðist á ekta gamaldags pólitík þrátt fyrir að viðkomandi flokkar, Vinstri grænir og Samfylkingin, kannist ekki við slík vinnubrögð og sverji þau öll af sér.

Þá ætla ég hér akkúrat að fara yfir ferilinn og vonast til þess að ég fái nokkurn frið til þess. Ég er hér með gagn frá síðasta kjörtímabili sem fór yfir árið 2012 og það er hin títtnefnda bók hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, Ár drekans. Nú ætla ég að vitna í bókina, með leyfi forseta:

„Mánudagur 5. mars.

Hefðbundinn ráðherrafundur sem byrjar í friðsemd snýst upp í hvassar hnippingar milli mín og Jóhönnu Sigurðardóttur út af rammanum og ESB.

Það byrjar með því að forsætisráðherra og Oddný G. Harðardóttir, sem er líka iðnaðarráðherra í bili, segja að þær hafi lokið samningum við VG og niðurstaðan feli í sér frestun á virkjunum í Hágöngum og Skrokköldu og rök Orra Vigfússonar um laxastofna eigi að útskýra frestun Þjórsár.“ — Ég endurtek: rök Orra Vigfússonar um laxastofna eigi að útskýra frestun Þjórsár. — „Hins vegar ætti að taka Eldvörp á Suðurnesjum inn í nýtingarflokk. Það er væntanlega til að styrkja Helguvíkurdæmið.“

Ég fer svo í lok ræðu minnar yfir hvað var raunverulega sett í nýtingarflokk af fyrrverandi ríkisstjórn og hvers vegna.

Nú vísa ég aftur í bókina, með leyfi forseta:

„Stöllurnar vilja taka málið í gegnum ríkisstjórn á morgun — og leggja áherslu á að allir ráðherrarnir tryggi að þingflokkurinn styðji málið. Með „allir ráðherrar“ eiga þær náttúrlega við mig. Þær vita vel að ramminn fer aldrei svo breyttur í gegnum þingflokkinn nema ég beiti mér fyrir því.

Jóhanna segir að VG geti ekki lifað við aðra niðurstöðu. Það mundi leiða til slita á ríkisstjórninni. Vísur, ýmist hálf- eða fullkveðnar, um yfirvofandi slit á ríkisstjórn eru í mínum eyrum orðnar dálítið slitnar. Ég dreg hins vegar ekki í efa orð hennar um að þessi niðurstaða sé samstarfsflokknum jafn mikilvæg og aðildarumsóknin okkur.

Oddný hefur af diplómatísku innsæi leitað til mín fyrir fundinn, ég hef lesið með henni texta og gefið til kynna að á réttum tíma gæti ég vel hugsað mér að styðja málið. Ég rifja hins vegar upp fyrir forsætisráðherra að bæði IPA-aðstoðin og samningsafstaða í landbúnaði séu í uppnámi og vísa í nýleg ummæli Steingríms J. Sigfússonar sem ég túlka þannig að VG velti fyrir sér að setja okkur stólinn fyrir dyrnar náist ekki að opna sjávarútvegs- og landbúnaðarkaflann fyrir áramót. Ég vil að Jóhanna, sem formaður flokksins, fái ESB-málið á hreint við VG áður en ramminn haldi áfram. Hún hafi sjálf lagt þessi mál að jöfnu og þá finnst mér rétt að þau haldist í hendur.“

Næst gríp ég niður í laugardaginn 24. mars, með leyfi forseta:

„Innan VG er hópur sterkra umhverfissinna sem m.a. tengist Guðfríði Lilju Grétarsdóttur, Björgu Evu Erlendsdóttur og Bergi Sigurðssyni, framkvæmdastjóra þingflokksins, sem mun frekar yfirgefa VG en láta Þjórsárvirkjanir yfir sig ganga. Hópurinn er þegar hundfúll út í ráðherra VG fyrir að hafa fallist á að taka Eldvörpin á Suðurnesjum inn í nýtingarflokk — og tengja réttilega við fyrirhugað álver í Helguvík.

Ráðherrum VG, sem sækja fast að ramminn verðir afgreiddur með breytingum sem Jóhanna hefur fallist á, líst ekki á blikuna þegar stór hluti þingflokks Samfylkingarinnar bakkar ekki upp tillögu formannsins. Það er í fyrsta skipti sem það hefur gerst. Ofan á hlaðast svo hótanir um refsiaðgerðir frá Evrópu sem vekja sterkar öldur innan flokksins. VG er með böggum hildar yfir stöðunni.

Mín megin hafa sex til sjö þingmenn lýst efasemdum um rammann í fjarveru minni. Kristján L. Möller er þyngstur í þessum hópi. Hann telur framkvæmdir í Helguvík nauðsynlegar til að koma hjólum atvinnulífsins af stað og er argur bæði út í Jóhönnu og VG. Það sama gildir um Árna Pál Árnason og Björgvin G. Sigurðsson. Hinn síðarnefndi hefur efasemdir um kosningar núna.“

Svo ætla ég að vekja athygli þingmanna á þessari setningu:

„Sjálfur hef ég ekki farið dult með að vilja seinka rammanum til að hafa hann sem vogarafl til að tryggja starfsfrið hjá VG gagnvart ESB-umsókninni fram eftir ári.“

Að lokum ætla ég að vísa í dagbókarfærslu mánudaginn 18. júní í þessari ágætu bók sem heitir Ár drekans, með leyfi forseta:

„Út af stendur ramminn. Hann verður ekki afgreiddur fyrr en í haust. Fyrir VG er hann jafn mikils virði og ESB er okkur. Það er á flestra vitorði að ég lít á rammann sem tryggingu fyrir því að VG stöðvi ekki ESB-málið.“

Svo mörg voru þau orð. Þrátt fyrir að hv. þm. Svandís Svavarsdóttir segði í ræðu hér á undan mér að Össur Skarphéðinsson færi ekki með rétt mál þá blasir sannleikurinn við, enda trúir því enginn upp á hv. þm. Össur Skarphéðinsson að hann gæfi út bók sem væri ekki byggð á sannleika. Ég get einnig staðfest það eftir að hafa starfað hér á síðasta kjörtímabili sem nýr þingmaður. Engum duldist að ESB var gjald Samfylkingarinnar fyrir verndun Þjórsár. Það voru fundin upp rök, laxarökin í Þjórsá, til að halda Þjórsá utan virkjana. Þetta er pólitískur hráskinnaleikur. Það sem þetta leiddi af sér, samkomulag þessara tveggja flokka á síðasta kjörtímabili, er öllum ljóst. Samfylkingin fékk að leggja inn umsókn að Evrópusambandinu og Vinstri grænir náðu sínu fram í gegnum rammaáætlun, í gegnum rammaáætlun þar sem þeim virkjunarkostum sem voru samþykktir var kollvarpað á síðasta kjörtímabili, 14 ára vinnu sem hafði verið unnin af fjölmörgum aðilum, m.a. sveitarfélögum og öðru ágætu fólki sem var í þessum hópum á þessu 14 ára tímabili, t.d. hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur, eins og kom fram hér áðan, sem hefur talað hér í andsvörum í kvöld, akkúrat á þessum nótum, manneskja sem hefur fulla yfirsýn og þekkingu á málinu. Þessu var breytt, virðulegi forseti. Um það stóð stríðið allt síðasta kjörtímabil að vikið var frá 14 ára samnings- og samkomulagsferli í öllu þessu máli.

Hv. þm. Svandís Svavarsdóttir sagði í Kastljóssviðtali í síðustu viku að núverandi ríkisstjórnarflokkar stundi frekjustjórnmál. Það eru tvö ár liðin af þessu kjörtímabili — hvaða stjórnmálaflokkur stundar frekjustjórnmál í þinginu ef ekki Vinstri grænir miðað við þær forsendur sem liggja nú fyrir? Þingflokkur sem var ekki kosinn af 90% þjóðarinnar ætlast til að ríkisstjórnin sem nú starfar og hlaut gott brautargengi í síðustu alþingiskosningum haldi áfram með stefnu Vinstri grænna. Er það lýðræðið sem allir eru að kalla eftir, að kjörin stjórnvöld geti ekki komið fram sinni stefnu en eigi þess í stað að sigla eftir stefnu fyrri ríkisstjórnar, stefnu sem var fengin með hrossakaupum við Samfylkinguna sem fékk sitt eina stefnumál framkvæmt, að leggja inn umsókn að Evrópusambandinu, sem sigldi svo í strand strax árið 2011 þegar ESB gat ekki lagt fram rýniskýrslu í sjávarútvegskaflanum.

Virðulegi forseti. Allt síðasta kjörtímabil einkennist af mikilli sóun, sóun á tíma, sóun á orku, sóun á peningum, akkúrat vegna þess samkomulags sem ríkisstjórnarflokkarnir gerðu. Þeir keyptu hvor sitt málið af hinum og þetta er útkoman. Svo standa þessir flokkar hér núna og hleypa málinu ekki áfram til þess að hægt sé að byggja upp blómlegt atvinnulíf í sátt við náttúruna með þeim auðlindum sem við eigum og ætlast til þess að núverandi ríkisstjórn framfylgi stefnu þeirra. Það er hreint með ólíkindum.

Virðulegi forseti. Ég talaði um að ég mundi koma aftur að þeirri pólitísku ákvörðun sem var tekin á síðasta kjörtímabili með þingsályktun um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða þar sem raunverulega öllu var riðlað sem verkefnisstjórnin hafði lagt grunn að. Þessi þingsályktun var samþykkt 14. janúar 2013. Farið var í það á grunni laxarakanna, búið var að finna út að það þyrfti einhver rök til þess að taka vatnsaflsvirkjunarkostina í Þjórsá úr gildi og þau rök voru laxarökin. Þetta kemur skýrt fram í bók Össurar Skarphéðinssonar.

Næst ætla ég að segja þetta: Það vita allir sem hafa komið að virkjunarmálum og nýtingu náttúruauðlinda að vatnsaflsvirkjanir eru langhagkvæmasti kosturinn. Vatnsaflsvirkjanir valda minnstri röskun á náttúrunni. Vatnsaflsvirkjanir verða mörg hundruð ára gamlar vegna þess að þarna er verið að virkja vatn sem streymir áfram endalaust. Þessu vildu Vinstri grænir breyta og komu virkjunarkostum í Þjórsá í biðflokk. Í staðinn var farin sú leið að fara inn á friðlýst svæði, friðlýsta fólkvanga, á Reykjanesi með háhitavirkjanir. Það sem segja má um háhitavirkjanir hér á landi er að afar lítil reynsla er af þeim. Þær eru mjög umdeildar út frá verndunarsjónarmiðum og umhverfissjónarmiðum því að háhitavirkjanir tæmast. Þær tæmast á 25–80 árum eftir því hvað þær eru öflugar. Þessi umhverfissjónarmið voru ekki skoðuð eða notuð sem rök hjá Vinstri grænum og Samfylkingunni á síðasta kjörtímabili. Í virkjunarflokkinn voru sett nokkuð mörg háhitasvæði á Reykjanesi og háhitasvæði í kringum Kröflu.

Þá komum við að hinu samkomulaginu sem hv. núverandi þingmenn Oddný Harðardóttir og Svandís Svavarsdóttir gerðu þegar þær voru ráðherrar í síðustu ríkisstjórn, hv. þm. Svandís Svavarsdóttir var umhverfisráðherra og hv. þm. Oddný Harðardóttir gegndi embætti iðnaðarráðherra um stutta hríð. Þá var lögð áhersla á að sýna fram á að það væri marktækur vilji fyrir því að byggja upp á Reykjanesi. Ég geri ekki lítið úr vandanum sem er á Reykjanesi en orkan sem fengist úr Þjórsá, hefði verið farin sú leið á sínum tíma, hefði að sjálfsögðu nýst á Reykjanesi og er langtum öruggari orka og ekki eins umhverfisspillandi. Með þessu setti þáverandi iðnaðarráðherra fingraför sín á verkefni sem hún var að gera fyrir kjördæmi sitt.

Svo komum við að hinum kaflanum í þessu samkomulagi. Það varð að gera eitthvað á Bakka í Norðausturkjördæmi og þess vegna voru háhitasvæðin í kringum Kröflu sett í nýtingarflokk. Ég geri heldur ekki lítið úr því að það þurfi að byggja upp í Norðausturkjördæmi en raforkan er svo sannarlega hreyfanleg um landið. Það eru meira að segja uppi hugmyndir um það núna að leggja rafstreng til Bretlands. Hv. þm. Svandís Svavarsdóttir svaraði ekki þeirri spurningu sem kom frá þingmanni af hverju farið var inn á friðlýsta fólkvanga á Reykjanesi og gerð tillaga um að setja háhitavirkjun í nýtingarflokk. Við þessum spurningum verðum við að fá svör en þau byggjast nefnilega á kjördæmapólitík. Ég vil meina að þeir nýtingarkostir sem voru samþykktir af síðustu ríkisstjórn séu til muna ekki eins umhverfisvænir og þeir virkjunarkostir sem meiri hluti atvinnuveganefndar leggur fram núna.

Það er hægt að deila hér endalaust um keisarans skegg. Við stöndum frammi fyrir því að það er verið að reyna að setja fram vilja verkefnisstjórnar sem var búin að raða þessum vatnsvirkjunum í nýtingarflokk og síðan talað um að Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn séu einhverjir virkjunarflokkar, þegar við erum fyrst og fremst að hugsa um náttúruauðlindirnar okkar og hvernig þær verði best nýttar og minnsta raskið verði á náttúrunni. Það er ekki hægt að tala um umhverfismál án þess að tala líka um náttúruauðlindamál því að þetta tvennt er órjúfanlegt enda umhverfisréttur og auðlindaréttur byggður á sama grunni.

Framsóknarflokkurinn er grænn flokkur og þingmenn Framsóknarflokksins eru allir umhverfisverndarsinnar þannig að það sé sagt. Þeirri bábilju að við séum eitthvað annað vísa ég til föðurhúsanna með þeim breytingum sem hæstv. umhverfisráðherra leggur hér fram og hefur talað fyrir og boðað breytingar á enda er hæstv. umhverfisráðherra sveigjanleg og skynsöm. Hún dregur þessa einu virkjun til baka því að hún er ekki alveg tilbúin þó að hún hafi verið það á síðasta kjörtímabili. Þetta er staðan, virðulegi forseti. Það er ekki um neitt annað að ræða. Þetta gegndarlausa málþóf hér undanfarna viku þar sem þeir flokkar sem nú sitja í stjórnarandstöðu vilja ekki hleypa málinu á dagskrá, tala sífellt um fundarstjórn forseta, (Gripið fram í.) sýnir að málstaðurinn er afar veikur, afar slæmur þegar farið er í rökin og hvernig þessi saga öll er.

Ég bendi fólki á bók hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, Ár drekans. Þar koma hrossakaupin fram þó að hv. þm. Svandís Svavarsdóttir segi að hún hafi ekki litið þannig á málin en öllum sem störfuðu hér á síðasta kjörtímabili var ljóst hvað gekk á. Höfuðdjásn Vinstri grænna, að friða Ísland, og höfuðdjásn Samfylkingarinnar, að ganga í Evrópusambandið, var í húfi hjá báðum flokkum. Það var samið á þessum grunni enda fór síðasta kjörtímabili nánast allt í þessi tvö mál. Við vitum það. Þetta er opinbert, þetta er grunnurinn að málinu og vonandi verður þetta til þess að skýra það út fyrir landsmönnum sem horfa á Alþingisrásina á hvaða grunni málþófið byggist, sem hefur staðið yfir í fleiri daga. Það er búið að tala um fundarstjórn forseta í tæplega þrjá daga. Þetta er byggt á þessum grunni. Við þurfum alltaf að gá að því hver grunnurinn er áður en farið er að tala og dylgja um önnur mál.

Virðulegi forseti. Ég styð tillögu meiri hluta atvinnuveganefndar og þær breytingartillögur sem frá nefndinni koma því að þetta er það sem við eigum að byggja á, að ná í orku þar sem er hagkvæmast og veldur minnstum spjöllum fyrir náttúru Íslands.