144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:49]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Rannsóknir standa yfir á Urriðafossvirkjun, þeim er ekki lokið. Þær lúta meðal annars að því hvort virkjunin hafi óbætanleg áhrif á laxastofna í ánni. Það kemur virkjununum ofar í ánni einfaldlega ekkert við, vegna þess að laxinn gengur upp fyrst í gegnum Urriðafoss og það er þar sem mesti vafinn er að þessu leyti. Ég vísa aftur til þess sem ég nefndi áðan, hv. þingmaður sagði fyrir þremur árum síðan að eðlilegt væri að bíða með Urriðafossvirkjun meðan rannsóknir stæðu yfir. Þær standa enn þá yfir og hvað réttlætir sinnaskiptin? Það er í grundvallaratriðum búið að breyta um afstöðu, og hv. þingmaður verður auðvitað að virða efnistökin sem hæstv. þáverandi umhverfisráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, færði fram á sínum tíma. Þau voru auðvitað alvörurök, (Forseti hringir.) sett fram af honum, og mér þykir það ansi léttúðugt ef hv. þingmaður ætlar að líta algjörlega fram hjá því sem flokksbróðir hennar, ráðherrann, sagði.