144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:52]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek eftir ákveðinni tilhneigingu hjá mörgum af mínum góðu vinum sem skoða mikið af heimildarmyndum á netinu og rannsaka það sem kallað er eða uppnefnt samsæriskenningar en eru oft, hvað á maður að segja, öðruvísi hugmyndir. Ég tek eftir því að rökfræðin er oft byggð á því að eitthvað miklu meira og djúpstæðara er lesið út úr orðum en raunverulega er að finna í þeim. Fólk sér mikilsmetinn mann í viðtali og hann segir eitthvað sem er svo notað sem sönnun þess að ríkisstjórnin sé að ljúga eða heljarinnar samsæri sé í gangi. Það er rosalega mikið lesið út úr orðum.

Ég fæ sömu tilfinningu þegar hv. þingmaður vitnar í bók hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, þegar hv. þm. Vigdís Hauksdóttir lætur eins og orðin í bók hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar séu til marks um að það hafi verið óheilindi á bak við afstöðu Vinstri grænna, en auðvitað er hv. þm. Össur Skarphéðinsson í Samfylkingunni en ekki í Vinstri grænum. Hann er ekki sammála hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur (Forseti hringir.) um laxarökin, þannig að ég skil ekki alveg hvernig hv. þm. Vigdís Hauksdóttir (Forseti hringir.) kemst að þeirri niðurstöðu að hugmyndir hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar (Forseti hringir.) séu hugmyndir hv. þm. Svandísar Svavarsdóttur.

Þessi tími er ekki nægur, ég legg til að hann verði lengdur.