144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:59]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Nú talaði hv. þingmaður á síðasta kjörtímabili mikið um réttarríkið Ísland og er mikill áhugamaður um að hér sé réttarríki, sem við viljum öll. Hvað segir hv. þingmaður um það að farið sé á skjön við lögformlegar leiðir í þessum efnum? Getur hv. þingmaður staðið með því að brotið sé á réttarríkinu Íslandi, eins og hv. þingmaður hefur mikinn metnað fyrir því að standa vörð um réttarríkið Ísland?

Mig langar líka aðeins að heyra frá hv. þingmanni varðandi Hagavatn og hvort tillaga þess efnis, breytingartillaga, komi fram eða hvort þetta séu bara svona vangaveltur eins og komu fram hjá hv. þingmanni um Urriðafossvirkjun, að kannski og kannski ekki, það væri eftir að skoða það. Er þetta allt bara svona fljótandi fram og til baka eða ætla menn að leggja til einhverjar breytingartillögur? Og hvað stendur þá eftir varðandi (Forseti hringir.) þessa breytingartillögu atvinnuveganefndar ef menn eru að slá endalaust úr og í í þessu máli?