144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[22:08]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég held að það væri heillaráð að forseti hlutaðist til um það að alþingismenn og aðrir þeir sem með umræðunni fylgjast geti nálgast bók Össurar Skarphéðinssonar á hagstæðum kjörum við þessa umræðu í kvöld því að hún virðist alfarið snúast um rit hv. þingmanns. Ég held að það hafi nú afhjúpast, og snýr það að fundarstjórn forseta, að öll umræðan hér síðustu dagana, þessi byrjun á umræðu um tillögu meiri hluta atvinnuveganefndar, er einfaldlega á misskilningi byggð. Einhverjir þingmenn stjórnarliðsins virðast hafa lesið einhverja búta úr bók hv. þingmanns (Gripið fram í.) og misskilið þá svo hrapallega að hann hefur neyðst til að leiðrétta þá sjálfur héðan úr ræðustólnum í kvöld.

Þegar það er fram komið, virðulegur forseti, að stjórnarliðið hefur haldið að það hafi verið einhver misbeiting á síðasta kjörtímabili sem réttlæti vond vinnubrögð á þessu kjörtímabili og að það er allt saman á misskilningi byggt og höfundurinn sjálfur hefur leiðrétt það (Forseti hringir.) held ég að það sé rétt að kalla málið aftur til nefndar og fara að gera eitthvað þarflegra en að standa í þessu röfli.