144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[22:19]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég ætla að vekja athygli á því að hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra er farin úr húsi. Kannski hefur hún bara skammast sín svona fyrir ræðu flokkssystur sinnar, hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur, sem dylgjaði hér og gaf meðal annars í skyn, herra forseti, að hv. þm. Oddný Harðardóttir og hv. þm. Svandís Svavarsdóttir færu með ósannindi. Það gagnálykta ég af því að hún hélt því fram að hv. þm. Össur Skarphéðinsson gæti ekki farið með rangt mál og þar af leiðandi hefðu hv. þingmenn Svandís Svavarsdóttir og Oddný Harðardóttir ekki farið rétt með í ræðum sínum í dag.

Ég ætla ekki að segja til um hvernig hæstv. umhverfisráðherra hafi liðið undir þeirri ræðu, en ég ætla að fara fram á það að hún verði hér áfram við umræðuna nema hún skammist sín fyrir málið í heild sinni.