144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[22:24]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mér finnast svör forseta hér alls ekki boðleg þinginu og sérstaklega ekki ef menn ætla að reyna að halda þannig á spöðunum að menn fari að koma að málum sem verið er að boða í fjölmiðlum, t.d. málum sem tengjast afnámi hafta og hæstv. fjármálaráðherra boðaði í fjölmiðlum í dag. Hvernig ætla menn að koma því hérna fyrir þegar við stöndum bara hér og bíðum eftir einhverjum nýjum tillögum? Veit hæstv. forseti ekki að við erum í síðari umr. um málið? Það verður engin frekari umræða, það er ekki 3. umr. um þingsályktunartillögur. Eftir hverju er verið að bíða? Það eru bara boðaðar breytingartillögur á breytingartillögur ofan, komið inn með upplýsingar um að þetta sé stærsta málið, oddamál ríkisstjórnarinnar í kjaraviðræðum o.s.frv. — og hvað? Á svo bara tillöguflutningurinn að koma einhvern veginn í þinglegri meðferð? Hvers lags þinglegri meðferð? Við erum í síðari umr. Mér finnst þetta algjörlega óboðlegt og (Forseti hringir.) forseti alls þingsins væri búinn að stöðva þennan fund, halda fund með þingflokksformönnum og fara yfir þessa stöðu.