144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[22:28]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég óska eftir því að þeir komi hér upp, hv. þm. Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar, og Páll Jóhann Pálsson, og geri grein fyrir því hvort þeir hyggist leggja fram boðaða breytingartillögu. Forseti tilkynnti áðan að hann gerði ráð fyrir því að meiri hluti atvinnuveganefndar legði fram þá breytingartillögu sem ráðherrar hafa boðað. Ég óska eftir því, virðulegi forseti, að þú hlutist til um það að þeir komi hér upp og geri grein fyrir því eða eigir með þeim fund og tilkynnir okkur hér þá hvenær ætlunin er að leggja fram þessa breytingartillögu.

Ef við stæðum ekki hér í umræðu um fundarstjórn, værum búin að ræða málið og mælendaskrá væri tæmd inn í nóttina, hvar stæðum við þá? Þá stæðum við frammi fyrir því að hér hefði verið boðuð breytingartillaga sem kom aldrei fram. Hvað þýðir það í verklaginu, virðulegi forseti? Telur forseti það boðlegt? Það finnst mér ekki og ég tel að við eigum að ræða málið með öll gögn undir. Mér finnst að þessum spurningum þurfi að svara. (Forseti hringir.) Og það á ekki að svara þeim þegar við verðum komin á endastöð í umræðunni.