144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[22:29]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég vil taka undir með það hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur að ef aðalleikendur í leikritinu sem við erum í geta ekki verið hér af persónulegum ástæðum þá eigum við að fresta sýningunni þangað til við getum öll verið hérna og sérstaklega þeir sem skipta máli.

Í annan stað verð ég að segja að ég hef samúð með forseta Alþingis. Hann segir að hann hafi gert ráð fyrir því að breytingartillaga sem boðuð var kæmi fram eins og venja er um þingmál. Þetta var í gær og nú er klukkan orðin hálfellefu og enn bólar ekkert á henni. Ég skil það svo sem að forseti geti ekki — ja, ég veit ekki hvað hann á að gera. Ég veit heldur ekki hvað forseti á að gera varðandi lok þingsins. Hann segir að starfsáætlun haldi en forsætisráðherra segir að það eigi að vera sumarþing. (Forseti hringir.) Ég ætla að lýsa innilegri samúð með (Forseti hringir.) forseta Alþingis í þeirri aðstöðu sem hann er með það fólk sem hann þarf (Forseti hringir.) að vinna með í ríkisstjórn landsins. [Hlátur í þingsal.]