144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[22:33]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég get tekið undir það að hæstv. forseta er nokkur vandi á höndum. Ég hygg að hvaða forseta sem er, hvort sem hann tilheyrði stjórnarmeirihluta eða minni hluta, væri nokkur vandi á höndum að búa við ríkisstjórn í upplausn og verkstjóralausa eins og þá sem landið situr því miður uppi með núna.

Ég kom hingað til að vekja athygli forseta á því að ég er ofarlega á mælendaskránni eins og hún stendur núna og mér fyndist nokkuð gengið á rétt minn sem þingmanns ef mér væri ætlað að flytja hér aðalræðu mína í þessari umræðu án þess að málið, sem ætti síðan að taka til afgreiðslu í lokin, lægi fyrir í endanlegri mynd. Mér finnst það einfaldlega þegar um er að ræða seinni og einu umræðuna sem eftir er um þetta mál. Þess vegna bið ég forseta nú að hugleiða það sem margir hafa nefnt hér, að það væri í öllu falli eðlilegt að nefndin kallaði málið til sín til þess að ganga frá endanlegum breytingartillögum og framhaldsnefndaráliti og rökstuðningi með þeim þannig að við vissum um hvað við værum að tala hér það sem eftir lifði umræðunnar, nær henni nú lyki, (Forseti hringir.) herra forseti, sem er annað mál.