144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[22:57]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vildi nota þetta tækifæri í stuttu andsvari við hv. þingmann og spyrja hann sérstaklega einnar spurningar. Honum verður tíðrætt um virðingu Alþingis, sátt um virkjunarmál o.s.frv. Já, það var grundvöllurinn að sáttinni sem við náðum á sínum tíma um lög um rammaáætlun og allt það. Nú deili ég þeirri hugsun með hv. þingmanni t.d. með þá virkjun sem hér var fyrst lagt til að færa úr biðflokki í nýtingarflokk og setja í það ferli sem kemur þar á eftir. Mig langar að spyrja hv. þingmann út í það álit sem kemur fram í minnisblaði umhverfis- og auðlindaráðuneytisins þar sem þeir segja beint að ekki sé gert ráð fyrir að Alþingi geti gert breytingar á flokkun þessara kosta þar sem lögbundið ferli verndar og orkunýtingar hefur ekki farið fram hvað þá varðar.

Í ljósi hinna nýju vinnubragða sem hv. þingmanni varð tíðrætt um, hvað segir hann þá um þetta álit umhverfis- og auðlindaráðherra þar sem beinlínis er sagt að þetta ferli, að meiri hluti (Forseti hringir.) nefndarinnar geri þessa breytingartillögu (Forseti hringir.) fyrir síðari umræðu, sé ólöglegt, standist ekki lög?