144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[23:02]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni fyrirspurnina.

Hvað eigum við að gera til þess að ná sáttinni? Ég er auðvitað ekki með lausnina hér, en það gerist ekki öðruvísi en að við setjumst að minnsta kosti niður og reynum að finna hana. Við munum ekki ná henni með því að halda hérna áfram að karpa út í eitt. Við getum karpað um lögfræðilegar skýringar og það er búið að gera það hérna fram og til baka, þær spurningar sem ég fékk áðan eru margbúnar að koma hérna fram. Við getum auðvitað reynt að setja hvert annað út í einhver öngstræti þar, en það er ekki tilgangurinn. Það hlýtur að vera tilgangurinn að leysa málið. Það hlýtur að vera mikilvægast í þessu öllu. Ef það er ágreiningur um lögfræðileg atriði eða annað, þá þurfum við að finna lausn á því og síðan þurfum við að finna lausn á því hvernig við ætlum að leysa þetta mál. Ég held að til þess þurfum við að setjast niður, bæði hér inni og fyrir utan þennan sal, og leysa málið sem fyrst.