144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[23:11]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans og fagna þeim sáttatón sem ég heyri í máli hans sem mér finnst vera mjög mikilvægur.

Ég hjó eftir því að hv. þingmaður talaði um að það væri best varðandi rammaáætlun að verkefnisstjórnin mundi klára málið frá A til Ö því við hér á þingi hefðum ekki vit á ýmsum flóknum málum og hv. þingmaður tók þar dæmi um. Ég er algjörlega sammála honum. En er þá ekki einmitt vandamálið og það sem við erum að ræða um að sex þingmenn í meiri hluta atvinnuveganefndar ákváðu að verkefnisstjórnin ætti ekki að klára þetta frá A til Ö? Þegar verkefnisstjórnin var komin inn í mitt stafrófið ákvað meiri hluti atvinnuveganefndar að taka málið í eigin hendur og gera breytingartillögu. Við erum, sem segir mikið um umræðuna, að fara að ræða um breytingartillögu við breytingartillögu við þingsályktunartillögu, þetta er (Forseti hringir.) er orðin mjög flókin umræða. En er hv. þingmaður ekki sammála mér að verkefnisstjórn hefði átt að fá (Forseti hringir.) að klára málið?