144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[23:16]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég vil aftur nefna við hæstv. forseta þá staðreynd að þingheimur hefur ekki undir höndum öll þau gögn sem þarf til þess að ræða málið og spyrja hann hvort það sé ekki alveg skýrt og alveg ljóst að umræðu verður ekki haldið fram í þessu máli fyrr en við höfum tillöguna og breytingartillöguna rökstudda með greinargerð undir höndum. Það er afar mikilvægt að við séum með allt í höndunum.

Svo vil ég líka nefna það sem kom fram í andsvörum við ræðu hv. þm. Ásmundar Friðrikssonar. Hann gaf færi á því að skoðaður yrði sá möguleiki til lausnar málinu að breytingartillaga meiri hluta atvinnuveganefndar yrði dregin til baka. Þetta er algjörlega ný staða í því máli sem hefur verið til umræðu í á aðra viku. Ég tel mjög mikilvægt að hæstv. forseti staldri við þennan möguleika til lausnar á þeirri erfiðu stöðu sem hefur verið viðvarandi um nokkurt skeið (Forseti hringir.) og freisti þess að halda fundi með þeim sem geta komið að lausn (Forseti hringir.) málsins.