144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

dagskrá næsta fundar.

[10:02]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við erum núna í viku búin að sóa tíma þingsins í tillögu sem er bæði umdeild og ekki tilbúin af hálfu þeirra sem bera hana fram í síðari umr. Við leggjum því til, þingmenn stjórnarandstöðunnar, að við snúum okkur hér að gagnlegri hlutum og förum að vinna að málum sem snúast um hag þessarar þjóðar. Þess vegna leggjum við til að í dag verði farið í störf þingsins, það verði sérstök umræða um húsnæðismál og síðan verði á dagskrá staðan á vinnumarkaði þar sem forsætisráðherra gæfi munnlega skýrslu.

Ekki veitir af, hæstv. forsætisráðherra kom inn í umræðuna um rammann í gær og fullyrti að ramminn væri það verkfæri sem mundi leysa deilurnar á vinnumarkaði. Hann er einn um þá afstöðu og það skiptir máli að hann komi hingað og gefi skýrslu um stöðuna á vinnumarkaði og setji þá í (Forseti hringir.) eitthvert rökrétt samhengi þær yfirlýsingar sem hann hefur gefið hér.