144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

dagskrá næsta fundar.

[10:06]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þingmenn minni hlutans leggja fram þessa dagskrártillögu. Hún sýnir fram á að hér er fullur vilji til að ræða þau mál sem er brýnt að ræða. Það er ekki rétt, eins og sumir halda, að það sé sjálfstætt markmið að lama Alþingi heldur þvert á móti viljum við að Alþingi taki á þeim málum sem þarf að taka á. Það þarf ekki að taka á rammanum eins og er. Það þarf ekki að virkja Hvammsvirkjun á morgun. Það þarf ekki að fimmfalda virkjunarkostina hér og nú.

Það þarf hins vegar að tala um kjaramálin. Það þarf að tala um húsnæðismálin og sem betur fer verður það gert hvort sem er. Það þarf að tala um helling af mjög alvarlegum vandamálum í samfélaginu og við erum komin hingað til að gera það. Þessi tillaga er til að sýna fram á að hér viljum við ræða það sem er aðkallandi og það sem skiptir máli fyrir samfélagið allt hér og nú.