144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

dagskrá næsta fundar.

[10:10]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þetta er formleg tillaga frá okkur í minni hlutanum, tilraun til að breyta dagskrá þingsins og færa hana í átt að málum sem meiri sátt ríkir um og meiri þörf er á að fjalla um hér í ljósi þess alvarlega ástands sem blasir við samfélaginu.

Ég held að við ættum öll að hlusta á hjartnæma ræðu hv. þm. Ásmundar Friðrikssonar sem hann flutti í gær um nauðsyn samstöðunnar, að menn ættu að ná saman hérna og finna leið út úr þessu. Staðreyndin er sú að Landsvirkjun hefur sagt á fundum að hún sé tilbúin að ráðast í Hvammsvirkjun. Hvað sem mönnum finnst um þá framkvæmd verður ekki um það deilt að verkefnisstjórn hefur lagt til að hún ein verði flutt úr bið í nýtingu. Það skiptir engu máli hvað mönnum finnst hafa verið gert á síðasta kjörtímabili, menn verða að fylgja lagarammanum sem er í þessu, fylgja verkferlunum sem hafa verið ákveðnir í þessum sal af öllum flokkum.