144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

dagskrá næsta fundar.

[10:16]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ef þessi síðasta ræða er ekki tilefni til að samþykkja þessa dagskrártillögu þá veit ég ekki hvað, ef þingmenn stjórnarmeirihlutans átta sig ekki á því að við erum í lokaumræðu um málið, lokaumræðu um rammaáætlun. Það er engin önnur umræða. Samt eru þeir á meðan umræðunni vindur fram að gera breytingar á málinu, tala sig inn á hugsanlegar lausnir hingað og þangað, boða breytingartillögur sem eru ekki lagðar fram. Málið er ekki tilbúið. Þess vegna leggjum við til m.a. að menn fari að snúa sér að brýnni málum sem eru kjör fólksins í landinu.

Hæstv. forsætisráðherra tengdi rammaáætlun við kjaramálin. Þess vegna er eðlilegt að á dagskrá í dag verði umræða um kjaramálin, hann gefi okkur skýrslu um það. Hluti af hvaða plani er rammaáætlun inni í lausn kjaradeilu? Það heldur enginn annar þessu fram nema hann. Þess vegna, (Forseti hringir.) virðulegi forseti, köllum (Forseti hringir.) við eftir því að hér á dagskrá í dag verði (Forseti hringir.) forsætisráðherra með munnlega skýrslu um þetta mál. (Forseti hringir.) Hvað erum við annars að gera hérna, virðulegi forseti? Til hvers voru menn hingað kjörnir?