144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

dagskrá næsta fundar.

[10:23]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þessi tillaga um breytta dagskrá, sem ég að sjálfsögðu styð, gæti verið miklu lengri. Á henni gætu verið ein 20 mál sem bíða hér tilbúin til umfjöllunar og afgreiðslu og mörg þeirra óumdeild og það má vel ætla að milli tíu og fimmtán frumvörp væru nú orðin að lögum ef þessari ófriðarsprengju hefði ekki verið hent inn í þingið fyrir viku síðan.

Ef við förum aðeins yfir upphaf þessa máls þá er það að ráðherra skrifar verkefnisstjórn bréf og biður hana að hraða skoðun á sex, átta virkjunarkostum. Verkefnisstjórn gerir það, skilar af sér til ráðherra og segir að það séu forsendur til að breyta flokkun á einni virkjun, á einum kosti í biðflokki, Hvammsvirkjun. Ráðherra fellst á og er sammála niðurstöðu verkefnisstjórnar og leggur það og það eitt til við þingið, fyrrverandi hæstv. umhverfisráðherra. Núverandi hæstv. umhverfisráðherra hefur sagt að hún sé sammála honum þannig að auðvitað er það eins og hvert annað vantraust við þessa hæstv. ráðherra, þetta brölt sem síðan hefst í þinginu undir forustu meiri hluta atvinnuveganefndar. (Forseti hringir.) Þeir voru búnir að staðfesta hina faglegu niðurstöðu verkefnisstjórnar (Forseti hringir.) og eru náttúrlega geðlitlir menn að láta bjóða sér þetta. (ÖS: Gungur og druslur.)[Kliður í þingsal.

(Forseti (EKG): Forseti hlýtur að biðja um hljóð í þingsalnum.) [Kliður í þingsal.]

(Forseti (EKG): Forseti vill vekja athygli þingmanna á því, hafi það farið fram hjá þeim, að þeir eiga að eiga orðaskipti um mál í ræðustól þingsins.)