144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

dagskrá næsta fundar.

[10:26]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það sem hér er um að ræða er ósk okkar í minni hlutanum um að farið sé að þeim leikreglum sem settar hafa verið hvað varðar rammaáætlun. Hvaða leikreglur hafa verið settar varðandi þingsköp Alþingis? Hver er réttur minnihlutaþingmanna í þessari umræðu? Það er réttur okkar allra að flytja tillögur um breytingu á dagskrá og þegar við erum óánægð með dagskrána höfum við rétt á því, allir þingmenn, að koma hér upp og ræða undir liðnum fundarstjórn forseta nákvæmlega það að við séum mjög ósátt við það sem er á dagskrá þingsins. (Gripið fram í.) Við teljum að önnur mál eigi að vera hér á dagskrá. (Gripið fram í.)

Hvað eru hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans, hv. þm. Höskuldur Þór Þórhallsson, (Gripið fram í.) Guðlaugur Þór Þórðarson og (Gripið fram í.) Unnur Brá Konráðsdóttir að segja hér? Hættið að tala! Hættið þessu! Við göngum til atkvæða. Það er réttur þingmanna að koma hingað upp og lýsa skoðun sinni á dagskránni og það verður ekki tekið frá okkur af einhverjum stjórnarþingmönnum. (Forseti hringir.) Hættið að tala! Það gengur bara ekki. (Forseti hringir.) Við getum flutt svona dagskrártillögu á hverjum einasta degi, hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson.